Útlensk kona málar vatnslitamyndir
„Útlensk kona málar vatnslitamyndir“
Louise Harris í Stúdíó Stafni
Vatnslitamyndir bresku listakonunnar Louise Harris eru býsna frábrugðnar því sem við eigum að venjast úr þeirri átt. Í stað fíngerðra blæbrigða, ljóðrænnar innlifunar og hárfínnar samstillingar allra þátta, hugsar Louise í stórum myndflötum jafnt sem einingum, kröftugum dráttum og sterkum andstæðum forma og lita. Að stofni er myndheimur hennar viðauki við popplistina í Bretlandi á sjöunda áratugnum, þegar listamenn beindu athygli sinni að ytra byrði sjónmenningar: fjölmiðlum, fjöldaframleiðslu, auglýsingaiðnaði, neyslumenningu, alþýðutónlist og tísku, ýmist hlutlaust, með írónísku ívafi eða af velþóknun.
Viðfangsefni þeirrar „útlensku konu“ sem hér um ræðir er kvenímyndin, nánar tiltekið andlit konunnar, eins og alþjóðleg tískublöð meðhöndla það til samræmis þeim fatnaði sem þau halda að lesendum sínum hverju sinni. Þetta eru allt að því ómennsk andlit, glæsileg en svipbrigðalaus, sneydd tilfinningum sem raskað geta ró þeirra sem hrærast í heimi þessara blaða. Myndir Louise eru tilraun til að brjóta til mergjar kalda, nánast grímukennda, fegurð þessara andlita, komast inn að kviku þeirra. Í þeirri kviku, eins og Louise ímyndar sér hana, er að finna aflvaka þessara ágengu mynda, allan tilfinningaskalann frá varnarleysi til vægðarleysis, túlkaðan af malerískri ástríðu sem á stundum minnir á annan stórtækan vatnslitamálara, Emil Nolde.
Aðalsteinn Ingólfsson