Studio Stafn

Góðgerðaruppboð Listheimar

Góðgerðaruppboð á verkum í vörslu Stúdíó Stafns.
Uppboðsskrá í pdf formi

Listheimar ehf. halda uppboðið á vefnum Listaverk.is

Eftir andlát Viktors Smára Sæmundssonar, stofnanda og eiganda Stúdíó Stafns í upphafi árs 2022, hefur verið unnið að því að loka fyrirtækinu og skila þeim verkum, sem ýmist hafa verið þar í forvörslu eða umboðssölu til eigenda sinna. M.a. hafa verið birtar auglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu þess efnis, auk þess sem auglýsing sama efnis hefur einnig verið birt í Lögbirtingarblaðinu.
Í auglýsingunum hefur komið fram að ef umræddra verka verði ekki vitjað innan 3ja mánaða frá birtingu þeirra, muni þau verða seld og andvirði þeirra látið renna til góðgerðarmála. Ákveðið hefur verið að skipta ágóða af seldum verkum á milli Sumarbúða fyrir fötluð börn í Reykjadal og Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.
Nú, eftir ítrekaðar tilraunir við að koma óskilaverkunum í réttar hendur, er komið að því hrinda sölu þeirra, sem enn hefur ekki verið vitjað, í framkvæmd með því að halda netuppboð á þeim.
Um 130 verk verða á uppboðinu og höfundar þess eins margir og fjöldi verkanna gefur til kynna. Þar er meðal annars að finna æskuverk eftir Jón Engilberts, ómerkta Kjarvalsmynd, vatnslitateikningu eftir Halldór Pétursson og endurgerð af Ortelius Norðurlandakorti frá 1570, prentað 1972.

Uppboðið verður haldið undir merkjum Listheima ehf. í gegnum uppboðsvefinn Listaverk.is. Uppboðshaldari verður Viktor Pétur Hannesson. Verkin eru nú þegar til sýnis í sýningarsal Listheima og á vefnum. Opnað verður fyrir boð í verkin þann 26. febrúar n.k. kl. 12:00. Uppboðið mun standa yfir í viku og lýkur þann 4. mars milli kl 18 og 22. Boðum í stök verk verður lokað á ólíkum tímum til að einstaklingar geti boðið í fleiri verk samhliða.

Nánari upplýsingar gefur Viktor Pétur Hannesson í síma 787-8288 eða með tölvupósti á netfangið viktor@listheimar.is.


Opnunartímar í sal Listheima Súðarvogi 48 á uppboðstíma
26. febrúar – 4. mars

Mánudagur 26. febrúar Opnað fyrir boð 13 – 17
Þriðjudagur 27. febrúar 13 – 17
Miðvikudagur 28. febrúar 13 – 17
Fimmtudagur 29. febrúar 13 – 17
Föstudagur 1. mars 13 – 17
Laugardagur 2. mars 13 – 17
Sunnudagur 3. mars 13 – 17
Mánudagur 4. mars Lokadagur uppboðs 13 – 17

Uppboðsvefurinn Listaverk.is opnar mánudaginn 19. febrúar.

Uppboðsskrá í pdf formi

Utan auglýsts uppboðstíma eru Listheimar ekki með fastan opnunartíma.
Það er alltaf velkomið að hafa samband og bóka heimsókn.
Ljós í salnum eru kveikt svo hægt er að líta á verkin inn um gluggann allan sólarhringinn.