Fjörubækur og fleiri verk
Skáld leggur höfuð í bleyti. Ókunnir straumar flæða um fjörur.
Undiraldan er öflug, hún togar í burtu, út í heim. En ljúfsár saga íslenskrar lífsbaráttu kallar líka…
Blóðið rennur til skyldunnar ...
Muna tilraunir annarra til að frelsast undan fjötrum, kúgun, óréttlæti, fátækt, kulda.
Þæfa ull, snúa þráð. Sauma saman bækur um mikilvæg orð. Sauma saman vambir um innmat fyrir harðan vetur. Hnýta net. Binda segl og rifa þau: Hvít opnun.
Óskrifað blað í birtingu.
Hjartað dælir blóði. Bleki. Réttlæti og fegurð upp á líf og dauða.
Tvífari þinn í öðrum tíma talar annað mál. En hann er enn hluti af þér þótt hann sé löngu horfinn og þú skilur hann í draumi. Tifinningarnar sem tengja ykkur gegnum fjarlægðina flæða um taugar og tungu.
Sauðkindin er tvífari landnemans.
Fyrir þá sem sem nema land er náttúran opin bók.
Hlusta eftir hjartslætti þeirra sem lifa í landinu, lifðu í landinu.
Ganga frá fjöru til fjalls. Um þang og mosa. Hvíla höfuð á kodda. Eitt andartak. Hann er búinn til úr frelsisdraumum iðinna handa.
Hann er mjúkur en viðsjárverður, á valdi náttúruafla. Og höfuð á valdi draums.
Oddný Eir Ævarsdóttir